Dyrfjöll - Náttúrugarður

Verkefnið er byggt upp sem langtímaverkefni og er ætlað að skila rannsóknum, úttekt og greiningu á tækifærum svæðisins sem helsta aðdráttarafl ferðamanna á Austurlandi. Þá er helsta afurð verkefnisins tilbúin umsókn að Evrópu samtökum jarðminjagarða (European Geoparks Network) sem fyrsti Jarðminjagarðurinn sem komið er á fót á Íslandi. Verkefnið hefur þegar hlotið styrk frá Atvinnuþróunarsjóði Austurlands og Vaxtarsamningi Austurlands.

Verkefnið felst í undirbúningi að stofnun náttúrugarðs í nágrenni Dyrfjalla. Aðilar á vegum sveitarfélaganna tveggja, ferðaþjónustunnar og stoðstofnana hafa undanfarna mánuði starfað í vinnuhópi um Dyrfjallaklasa sem hefur það m.a. á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að European Geoparks Network árið 2011.

Meginmarkmið verkefnisins er að:

  • Veita gestum svæðisins vandaða sjálfbæra ferðaþjónustu frá hendi heimamanna
  • Skapa þekkt VÁ! eða aðdráttarafl fyrir erlenda og innlenda ferðamenn á Austurlandi
  • Miðla þekkingu á sviði jarðfræða, náttúru, menningar og sögu svæðisins.
  • Efla byggð, atvinnulíf og mannlíf á áhrifasvæði garðsins til frambúðar.
  • Dyrfjöll - Náttúrugarður verður adráttarafl númer 1 á Austurlandi og vera meðal tíu þekktustu viðkomustaða fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi

Grundvöllur verkefnisins er unnin útfrá:

  • Sérstöðu svæðisins varðandi fjölbreytni á sviði jarðfræði
  • Rómaðri náttúrufegurð svæðisins
  • Góðu skipulagi svæðisins hvað varðar gönguferðir og útivist
  • Markmiðum einstaklinga, stofnana, sveitarfélaga og fyrirtækja um eflingu atvinnulífs á svæðinu
  • Kyrrð og friðsæld svæðisins
  • Sterkum tengslum íbúa við náttúruna og virðingu þeirra fyrir henni
  • Möguleikum á uppbyggingu atvinnutengdrar starfssemi á sviði handverks, matvæla og ferðaþjónustu

Jarðminjagarður byggist aðallega á:

  • Jarðminjum (e. geological heritage)
  • fjölbreytileika innan svæðisins
  • Landslagi og landslagsheildum

Í tengslum við jarðminjagarða hefur þróast jarðfræðitengd ferðamennska – Geoturism, sem miðar að því að skapa einstaka upplifun ferðamanna bæði hvað varðar náttúru og menningarminjar svæðisins.

www.europeangeoparks.org

Meginmarkmið samtakanna European Geoparks Network er verndun jarðminja (e. geological heritage) með því að koma á sjálfbærri þróun innnan jarðfræðigarðanna og byggja upp jarðfræðitengda ferðamennsku.  Almenna reglan er sú að öll starfsemi innan jarðfræðigarða Evrópu verður að vera í þeim anda sem tengslanetið leggur áherslu á, það er sjálfbær þróun og verndun jarðminja.  Þetta á sérstaklega við um jarðfræðitengda ferðaþjónustu og hverskonar framleiðslu innan svæðisins.  Allir jarðfræðigarðar Evrópu vinna að sama markmiði, það er að gera sín svæði að sérstökum áfanagstað ferðamanna og áhugaverðum stað til að heimsækja. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu European Geopark Network