Gönguferðir um Víknaslóðir

Borg Gistihús

720 Borgarfjörður eystri

Sími/Veffang/Netfang:  (+354) 472-9870 / www.borgarfjordureystri.is / Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpósts þjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það.

 

Innra-Hvannagil, í Njarðvík. Fallegt líparítgili með svörtum berggöngum. Stutt ganga upp í gilið er auðveld og vel þess virði ef menn hafa auga fyrir fegurð í náttúrunni.

Fagrihóll - við rætur Svartfells. Þar gefur að líta sérkennilegar frostmyndanir í móabörðum. Frostið hefur myndað einskonar „risavaxinn kartöflugarð“.  Í Fagrahól býr huldufólk eins og segir frá í sögunni Álfkonan við Fagrahól

Krossinn helgi, Naddakross, í Njarðvíkurskriðum. Hér í Njarðvíkurskriðum hafðist við óvættur á öldum áður. Hann hraktist í sjó fram eftir bardaga við Jón Bjarnarson og reisti hann þá kross „fyrir guðs vernd á sér“ og hefur honum verið við haldið síðan. Á krossinum er áletrun á latínu og ártalið 1306.  Frá þessu segir á vef Ferðamálahóps á Borgarfirði eystra undir  NADDASAGA.

Lindarbakki, torfbær, sumarhús Elísabetar Sveinsdóttur. Fallegur gamall torfbær í hjarta þorpsins. Hann er eitt vinsælasta myndefni gesta okkar. Bærinn var fyrst byggður árið 1899 og er næst elsta húsið í þorpinu.  Hlutar hans hafa verið endurbyggðir en kjallarinn, með brunni í, er upprunalegur.

Hvítserkur, fjall milli Húsavíkur og Borgarfjarðar. Fjallið er mest úr flikrubergi (ignimbríti) eða líparítösku og dökkir basalt-berggangar skera það þvers og kruss og mynda m.a. rómversku töluna XI eða l l. Toppur fjallsins er úr móbergi. Akvegurinn til Húsavíkur og Loðmundarfjarðar liggur um Húsavíkurheiði, við hlið Hvítserks.

Þorragarður - torfgarður í Njarðvík sem hefur verið hlaðinn að mestu um árið 1000 ef marka má Fljótsdælu og Gunnars sögu Þiðrandabana. Þar hjá er einnig Þiðrandaþúfa, þúfan sem Þiðrandi á að hafa setið á þegar Gunnar skaut að honum örinni. 

Brúnavík er næsta vík sunnan Borgarfjarðar. Víkin, sem er allbreið, horfir mót norðaustri og upp af henni gengur fremur brattur dalur sem einkennist af grónum melhryggjum og mýrum. Í Brúnavík var löngum tvíbýli en hún fór í eyði 1944. Þar þóttu góð skilyrði til búsetu fyrr á öldinni, góð tún og engjar, fjörubeit allnokkur og að jafnaði snjólétt. Þá er lending allgóð í Brúnavík. Þar er nú neyðarskýli SVFÍ.
Klettar fyrir botni víkurinnar eru mjög sérstæðir.  Þetta eru líparítmyndanir og sandfjaran ber þess sterkan svip og hefur fólk ákaflega gaman af því að rölta um fjöruna.

Glettingsnes er lítill láglendur tangi milli Hvalvíkur og Kjólsvíkur undir snarbröttu norðurhorni Glettings. Glettingsnes var afskekktasti bær í Borgarfjarðarhreppi en gönguleiðin þangað er afar varasöm í vetrarfærð. Brekkan niður á nesið er svo brött að um fyrri hluta síðustu aldar var komið þar fyrir hjálparvað (streng) til hjálpar þeim sem leið áttu um. Enn má sjá merki þessa merkilega framtaks. Fyrr á öldum var útræði mikið frá Glettingsnesi, enda stutt á fengsæl fiskimið. Lending er allgóð norðan á nesinu, en þar er þó mjög brimasamt. Viti er á nesinu, reistur árið 1931. Steinhús ofarlega á nesinu var byggt 1933 fyrir vitavörð en í því hefur ekki verið búið síðan 1952.

Kjólsvík er lítil vík milli Glettings og Grenmós. Hún er stutt, undirlendi lítið og framhlaup setja sterkan svip á landslagið. Munnmæli segja að til forna hafi víkin verið slétt og fögur og þá hafi verið stöðuvatn uppi á Víðidalsfjalli. Eina nótt hafi fjallið klofnað um vatnið og hlaupið fram um alla vík. Hvað sem þessu líður þá heita Háuhlaup og neðar Láguhlaup fyrir neðan brotsár Víðidalsfjalls. Bæjarstæðið í Kjólsvík var all hrikalegt en Kjólsvíkurbærinn stóð út við sjó sunnan undir snarbröttum hlíðum Glettings. Skammt upp af bænum er kletturinn Kjóll sem víkin dregur nafn sitt af. Orðið kjóll þýddi skip (kjölur) í fornu máli. Kjóllinn varði bæinn fyrir skriðuföllum. Í Kjólsvík þóttu og þykja enn góð beitarskilyrði fyrir sauðfé, enda er þar snjólétt og allvel gróið. Eitt býli var í Kjólsvík en það fór í eyði 1938.

Breiðavík er landnámsjörð. Þar segir Landnáma að Þórir Lína hafi numið land. Fyrir botni víkurinnar er breiður sandur og þar fellur Stóraá (Víkurá) til sjávar. Hún skilur að miklu leyti að jarðirnar Breiðuvík og Litluvík (Litlu-Breiðuvík) sem er sunnan árinnar. Litlavík fór í eyði árið 1945. Skammt frá sjó norðan megin í víkinni stóð Breiðuvíkurbærinn.
Þar var löngum tvíbýli, en byggð þar lagðist af árið 1947. Breiðavík var eftirsótt jörð vegna mikils landrýmis og landkosta en slæm lendingarskilyrði þóttu þó mikill löstur. Þá er einnig þokugjarnara í Breiðuvík en í Borgarfirði. Víkin er vel gróin og litskrúðug líparítfjöll skapa ákaflega sérstaka fjallasýn. Landeigendur og Slysavarnasveitin Sveinungi á Borgarfirði reistu þar neyðarskýli á níunda áratugnum og sumarið 1998 reisti Ferðafélag Fljótsdalshéraðs þar 33ja manna glæsilegan gistiskála.

Húsavík er stærst víkna milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar. Þar segir Landnáma að Þorsteinn kleggi hafi numið land og út af honum séu Húsvíkingar komnir. Inn af víkinni gengur grösugur dalur sem skiptist síðan í þrjá minni dali. Fjórir bæir voru í Húsavík, þrír út við sjó en einn innar í víkinni. Fyrr á öldum mun þó hafa verið búið víðar í víkinni. Húsavík þótti góð bújörð, þar var fjörubeit góð og þaðan var gott útræði. Snjóþungt er í víkinni og þokur tíðar, auk þess sem stórviðri hafa unnið þar mikið tjón. Í Húsavík er  Húsavíkurkirkja, byggð 1937. Í Húsavíkursókn voru jarðirnar fjórar í víkinni, en auk þess Litlavík og Álftavík.  Jeppavegur um Húsavíkurheiði og áfram um Nesháls til Loðmundarfjarðar er snjóþungur og sjaldnast fær fyrr en í byrjun júlí. Við sjó milli Herjólfsvíkur og Húsavíkur er eitt fallegasta náttúrufyrirbæri Borgarfjarðarhrepps, Blábjörg, glæsilegt stuðlaberg sem verður ekki skoðað nema af sjó.
Milli Húsavíkur og Loðmundarfjarðar heita Álftavíkur, Innri og Ytri. Sögusagnir herma að fyrr á öldum hafi öðru hverju verið byggð á Innri víkinni en skráðar heimildir um það finnast ekki.  Sú Ytri hélst í byggð fram yfir aldamótin 1900. Á Álftavíkum er undirlendi afar lítið, en þar er veðursælt, snjólétt og lending góð á Ytri-Álftavík í náttúrulegri höfn sem heitir Lotna.  Álftavíkurtindur er frægur fyrir sérstæð jarðlög.    Í júlí 2000 var tekinn í notkun nýr 33ja manna glæsilegur gönguskáli í eigu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.    Hann er við rætur Skælings, skammt frá veginum upp á Nesháls.

Loðmundarfjörður gengur inn úr Seyðisfjarðarflóa milli Álftavíkurfjalls að norðan og Brimnesfjalls að sunnan. Loðmundarfjörður var sérstakur hreppur allt fram til 1. janúar 1973 að hann var sameinaður Borgarfjarðarhreppi. Byggð í Loðmundarfirði var allblómleg á fyrri hluta aldarinnar og íbúar fjarðarins voru t.d. 87 um síðustu aldamót. Bújarðir í Loðmundarfirði voru tíu talsins, en um miðja þessa öld fór að koma los á byggðina og á árum milli 1940 og 1965 fóru fimm jarðir í eyði. Tvær stærstu jarðirnar, Stakkahlíð og Sævarendi, héldust lengst í byggð, sú síðarnefnda til ársins 1973. Í Stakkahlíð hefur síðustu ár verið starfrækt þjónusta fyrir ferðamenn. Kirkjustaður var að Klyppsstað meðan byggð hélst í firðinum og þar stendur enn kirkja byggð 1891. Hún hefur nýlega verið gerð upp að hluta. Þéttbýli myndaðist aldrei í Loðmundarfirði og engar teljandi hafnarbætur voru gerðar þar.
 Þetta ásamt einangrun fjarðarins má nefna sem mögulegar ástæður þess að byggð lagðist af í firðinum. Samgöngur við Loðmundarfjörð hafa alltaf verið erfiðar. Gönguleiðir liggja yfir Hjálmárdalsheiði til Seyðisfjarðar og Kækjuskörð til Borgarfjarðar auk þess sem ruddur jeppavegur er yfir Nesháls til Húsavíkur 1961og þaðan áfram um Húsavíkurheiði til Borgarfjarðar. Hann er sjaldnast fær fyrr en á miðju sumri. Auk þess gengu Loðmfirðingar áður fyrr til Héraðs um Hraundal. Meðan byggð var í Loðmundarfirði vildu íbúar hans láta athuga vegalagningu til Seyðisfjarðar út með ströndinni og um svokallaðan Jökul en úr því varð aldrei. Árið 1993 fluttu tveir þingmenn Austurlands hinsvegar þingsályktunartillögu um lagningu sumarvegar milli Seyðisfjarðar og Loðmundarfjarðar, en ekkert hefur enn komið út úr því.

Stórurð  (Hrafnabjargaurð) er í Urðardal í Hjaltastaðaþinghá, og hún tilheyrir jörðinni Hrafnabjörgum, enda einnig kölluð Hrafnabjargaurð. Stórurð er án efa eitt stórfenglegasta náttúrufyrirbrigði á Austurlandi og þó víðar væri leitað en talið er að hinar stóru steinblokkir hafi fallið niður á ís og hann síðan flutt þær fram dalinn og mótað þannig þessa undraveröld.
Hinu sérstæða landslagi Stórurðar er erfitt að lýsa með orðum, en það er vissulega stórbrotið. Eggsléttir grasbalar og hyldjúpar tjarnir innan um stór björg á hæð við fjölbýlishús. Yfir öllu þessu gnæfa Dyrfjöllin, ekki síður tignarleg héðan að sjá en úr Borgarfirði. Enginn verður svikinn af því að eyða hér einni dagstund eða jafnvel fleirum. Í Stórurð er talsvert snjóþungt og því skyldu ferðamenn spyrjast fyrir um snjóalög ef þeir eru á ferðinni snemma sumars. Ganga utan merktra leiða í Stórurð getur verið vafasöm í þoku, en þá er auðvelt að villast þar. Frá Stórurð liggur merkt leið inn á þjóðveginn í Ósfjalli, önnur upp á Vatnsskarð og síðan tvær merktar gönguleiðir til Borgarfjarðar,  báðar mjög áhugaverðar. Önnur er upp urðina og áfram um Eiríksdalsvarp og niður að Hólalandi, innst í Borgarfirði en hin er yfir Mjóadalsvarp og áfram um Grjótdalsvarp og komið niður í Bakkagerði, þorpið í Borgarfirði eystra.  Á síðustu árum hefur ganga í Stórurð verið einn af hápunktum í gönguferðum á Víknaslóðum.